Er eitthvað veður í Reykjadal?

Yngri hópurinn í norðangjólu og éljagangi

Er eitthvað veður í Reykjadal?  Auðvitað er veður þar eins og annarsstaðar en hverskonar veður?  Hvað vitum við um meðalhita, rakastig, úrkomu, vindhraða og vindátt svo dæmi sé tekið?  Auðvitað vitum við heilmargt en langar að vita og skilja meira og þess vegna kom Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í heimsókn í Litlulaugaskóla þriðjudaginn síðasta 8. maí á vegum Fornleifaskóla barnanna.  Tilefnið var m.a. að þann sama dag færði Fornleifaskólinn Litlulaugaskóla sjálfvirka veðurathugunarstöð til afnota en hún verður sett upp á skólalóðinni og hefjast þar með sjálfvirkar óopinberar veðurfarsmælingar í Reykjadal nemendum Litlulaugaskóla og vonandi fleirum til gagns og gamans.

Yngri nemendahópurinn (1.-5. bekkur) fékk það hlutverk að velja stað fyrir stöðina og nýtti ráðgjöf Einars veðurfræðings við þann starfa, leitaði að öruggu svæði, hæfilega opnu fyrir verði og vindum  svo byggingar myndu ekki hafa afgerandi áhrif en þó það nálægt að þráðlaus sendibúnaður myndi örugglega draga inn í skólabygginguna.  Hópurinn ígrundaði staðarval af mikilli alvöru og komst auðveldlega að niðurstöðu sem allir aðilar gátu sætt sig við.  Þá var einnig kannað lofthitastig og hitamælinum var einnig stungið undir torfu til að mæla hitastigið í moldinni.  Mæliniðurstöðurnar þóttu ekki trúverðugar og því var gripið til þess ráðs að „kvarða“ hitamælinn, þ.e. kanna hvort hann mældi rétt.  Til þess var sótt hrím í frystiskáp í skólanum og það sett í ískalt vatn svo krapi myndaðist en krapi á að vera um 0 gráður á Celsius.  Í ljós kom að hitamælirinn sýndi umtalsverð frávik og verður því ekki notaður frekar við mælingar.

Hitamælirinn “kvarðaður”
Staðarvalshópurinn að störfum
Edribekkingar með veðurstöðina í skólatröppunum
Gufuhitamælingar

Eldrihópurinn  (6-9 bekkur) átti einnig stund með veðurfræðingnum og þar var m.a. kafað ofan í eðli hnjúkaþeys, spekúlerað í fellibyljum og skoðað hvaða veðurfarsupplýsingar finna má á netinu og hvernig vinna má með slík gögn t.d. í Excel, þ.m.t. þau gögn sem veðurstöðin mun safna .

Veðurstöðin verður sett upp í þemaviku LLS sem hefst innan skamms og vonandi munu áhugasamir geta nálgast upplýsingar á heimasíðu Litlulaugaskóla þegar nær dregur sumri og munu þá komast að því hvers konar veður er í Reykjadal en þar er örugglega alltaf einhverskonar veður líkt og alls staðar annarsstaðar.  UnnstIng