Um Fornleifaskóla barnanna

Fornleifaskóli barnanna var stofnaður 8. mars 2007 Í Litlulaugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit.

Stofnendur voru Unnsteinn Ingason framkv.stj. Ferðaþjónustunnar á Narfastöðum ehf. og formaður Hins þingeyska fornleifafélags og Baldur Daníelsson skólastjóri Litlulaugaskóla.

Tilgangur Fornleifaskóla barnanna er að auka tengsl grunnskólanemenda og vísindamanna með það að markmiði að opna nýjar leiðir í mögulegu náms- og starfsvali og kynna grunnskólanemum vísindaleg vinnubrögð og aðferðafræði auk þjálfunar í samskiptum og erlendum tungumálum. Einnig að tengja saman ólíka hópa í samfélaginu, börn og foreldra, fyrirtæki og stofnanir, vísinda- og fræðimenn.

Í Fornleifaskóla barnanna er fornleifafræði tvinnuð markvisst inn í kennslu á grunnskólastigi, jafnt vetur sem sumar, í hefðbundnu skólastarfi, opnum vinnustofum um helgar að vetri til og sumarnámskeiðum á vettvangi fornleifarannsókna.  Að fræðslunni koma innlendir sem erlendir sérfræðingar og vísindamenn sem og áhugafólk á ýmsum sviðum.